Sannur samvinnumaður

Faðir minn var Framsóknarmaður af lífi og sál. Gleymi aldrei hversu oft hann reifst við Davíð Oddson. Davíð svaraði aldrei, líklega hlustaði hann ekki þarna í sjónvarpinu. Pabbi var samvinnumaður. Ég, litaður af uppeldinu var það líka. Ég er ennþá samvinnumaður. Samvinnuhugsjónin hvarf úr Framsóknarflokknum fyrir löngu. Þess vegna er ég óflokksbundinn. Kannski sem betur fer. Er hræddur um að faðir minn sálugi velti sér í gröfinni ef hann sæi þær umveltingar sem nú hrista pólitíkina.

Það skelfur í pólitískum stoðum samfélagsins, látum þær skjálfa.

Ég geri þær kröfur á forystumenn samfélagsins að þeir sýni gott fordæmi. Ég geri þær kröfur á forystumenn samfélagsins að þeir segi satt. Ég geri þær kröfur á forystumenn samfélagsins að þeir séu fremstir í flokki varðandi siðferði, langt út fyrir landslög.

Að mínu mati þarf ekki mikið til. Það þarf hugrekki. Hugrekki er ekki eitthvað sem maður tínir af trjám eða finnur úti í móa. Hugrekki á uppsprettu í sjálfinu, djúpt inni í manneskjunni. Þaðan streymir hugrekkið og sæfir efann. Hugrekki gerir manneskjunni kleift að líta sjálfa sig í spegil. Ekki er allt sem kemur til sjóna gott eða fallegt. Hugrekkið veitir styrk til bera það og vera sannur.

Hugrekki er ekki öllum gefið.

Fyrir fjórum árum…

Góðan dag

Fyrir fjórum árum hófum við hjónin vegferð og fórum í forsetaframboð. Sú vegferð var okkur afar lærdómsrík. Fljótt kom í ljós að gamlar átakalínur samfélagsins lifðu í bestu velmegun og tókust harkalega á í þeirri kosningarbaráttu. Okkur hjónum varð fljótt ljóst að við, óþekktar persónur, sem að auki bjuggu á þeim tíma í Noregi, áttu lítt upp á pallborð kjósenda. En eins og í öllu okkar lífi þá vildum við ljúka því sem við byrjuðum á. Það gerðum við, þó án þess að beita okkur, þrátt fyrir að tækifærin hafi sannarlega gefið sig, til að mynda í beinum útsendingum í sjónvarpssal. Það er eitthvað sem kallað er „pick your fights“. 

Áherslur okkarí framboðinu voru keimlíkar öllum þeim framboðum sem nú hafa stigið fram og gefa kost á sér í embætti forseta, þ.e. sameina þjóðina, vera vörður lýðræðis, láta gott af sér leiða o.s.frv.. Ekki misskilja mig, þetta eru háleit, góð og falleg gildi sem vissulega eiga rétt á sér. Það er bara það að ég tel forsetaembættið snúast um mun fleiri og flóknari hluti í dag en ég gerði fyrir fjórum árum.

Síðan þá hef ég lagt mig eftir því að fylgjast eins náið og unnt er með forsetaembættinu. Tel ég forsetaembættið vera þrotlausa vinna, nóg er að kíkja á opinbera dagskrá forseta á heimasíðu embættisins til að átta sig á því.

Þeir tímar eru liðnir þar sem forseti getur leyft sér að sitja á Bessastöðum sem sameiningartákn. Þróun samfélagsins frá tímum Vigdísar er sú að almenningur á mun léttar með að koma skoðunum sínum á framfæri, almenningsálitið er ekki lengur síað á fámennum ritstjórnarskrifstofum fjölmiðla. Það tel ég til mikilla bóta.

Sitjandi forseti verður því á hverjum tíma að svara því beina ákalli sem berst frá þjóðinni. Þá sérstaklega á meðan að ekki er tryggð bein aðkomu þjóðarinnar að ákvöðunartöku, þ.e. ákall um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá landins. Megi það hins vegar verða sem fyrst. Um leið og forseti bregst við ákalli þjóðar og sendir mál í þjóðaratkvæðagreiðslu er gefið mál að hann er ekki lengur sameiningartákn. Því allir verða aldrei sammála hans gjörðum. Skýtur því skökku við að allir núvarandi frambjóðendur vilja vera sameiningartákn en á sama tíma segjast ekki hika við að nýta ákvæði í 26. grein gildandi stjórnarskrár.

Svo er það þetta með „að láta gott af sér leiða“, það er mjög teygjanlegt hugtak sem lítur vel út á pappír en er erfitt er að skilgreina hvað nákvæmlega er. Sjálfur féll ég í þá gildru að nota hugtakið fyrir fjórum árum og lent að sjálfsögðu í vanda við að klóra mig út úr því. Megi öðrum ganga betur í með það.

Við hjón hófum vegferð fyrir fjórum árum. Kannsi er þeirri vegferð lokið. Ef ekki þá yrðu áherslubreytinga að vænta af okkar hálfu.

Kv.

Hannes Bjarnason

Mannsins íbúandi illska

Góðan dag!

Óttarr Proppé hélt stuttorða en hnitmiðaða ræða á 89. fundi Alþingis þann 16. mars síðastliðinn. Þar vitnaði hann í Rannsóknarskýrslu Alþingis sem unnin var eftir hrunið og birt 2010, nánar tiltekið í 8. bindi, Siðfræðiskaflann. Hann velti fyrir sér hvað hafi orðið um þetta nýja Ísland, gegnsæið og átakið sem átti að verða í nýjum vinnubrögðum. Því pólítísk vinnubrögð og fjármál-, og tryggingargeirinn væru nú óþægilega farin að minna á tímabilið fyrir hrun.

Áður hef ég vitnað í Executive Master of Management nám mitt í Noregi, enda stórkostlegt nám sem mjög hefur mótað mig, og held ég því hér áfram. Stjórnunarhluti námsins tók fyrir sig mismunandi stefnur, kenningar og strauma innan leiðtogafræða og stjórnhátta almennt og t.d. hvaða eiginleika stjórnendur væru helst gæddir til að ná góðum árangri svo eitthvað sé nefnt.

Einn angi í því stórfljóti sem leiðtogafræðin annars eru horfði sérstaklega til neikvæðs mannlegs eðlis og samspils valds. Þar var horft til skrifa Niccoló Machiavelli sem oft er nefndur upphafsmaður nútíma stjórnmálafræði. Hann var á tímabili háttsettur maður í flórenska lýðveldisríkinu á 16. öld, þó örlög hans yrðu önnur en að vera þar lengi.

Í náminu vorum við látin lesa tvö verka Machiavelli, annars vegar „Il Principe“ og hins vegar „Discorsi“. Áfram var fjallað um þessi tvö verk út frá því sjónarmiði að í manneskjunni væri íbúandi illska sem að stjórnaði henni. Allt það sem fólk gerir stjórnast eiginlega út frá eigin persónulegum þörfum og allt annað látið lönd og leið. Svo sem að ná völdum, halda þeim og halda almúganum í skefjum.

Leikum við hugsunina, gefum okkur að í okkur öllum búi illska og að hún sé eðlislæg. Að við látum eingöngu stjórnast af eigin lystum, löngunum og þörfum. Að við látum líta út fyrir að vera umhugað um náungann eða heildina, en aðeins þegar það gangast okkur sjálfum. Það er niðurdrepandi hugsun og sannarlega vona ég að þessu sé ekki eingöngu svo farið.

Líti maður hins vegar á samfélag okkar út frá þessu sjónarmiði þá veit maður svei mér þá ekki hverju maður á að trúa stundum…

 

Kv.

Hannes Bjarnason

Samfélagsréttindi og samfélagsskyldur

Góðan dag!

Eitt sinn vann ég í skemmri tíma sem kennari á meðferðarheimili. Þetta var áhugaverður tími og þegar upp var staðið þá höfðu nemendur mínir sennilega kennt mér meira en ég þeim. Margt var áhugavert við vinnuna en það sem vakti hvað mesta umhugsun mína var hvað þetta unga fólk sem ég kynntist var meðvitað um réttindi sín, þ.e. samfélagsréttindi út frá þeirri lífsaðstöðu sem þau var í.
Ég fór að hugsa þetta mál í stærra samhengi, þ.e. réttindi og skyldur, út í frá þjóðfélagslegu sjónarhorni. Ekki þarf að rýna lengi í okkar ágæta samfélag til þess að sjá hversu samborgarar okkar, og við sjálf, erum oft svo upptekinn af samfélagslegum réttindum okkar að við steingleymum skyldunum. Því hverjum réttindum í samfélaginu fylgja skyldur, það er hin hliðin á myntinni.
Til að mynda eru það sjálfsögð réttindi að geta tjáð sig frjálst, hvar sem er, hvenær sem er og um hvað sem er. Þetta eru grunnstoðir lýðræðissamfélags. Skyldurnar eru hins vegar þær að við verðum að passa upp á hvernig við tjáum okkur og hvernig við setjum fram skoðanir okkar. Gæta kurteisi og velsæmis í hvívetna. Vel er hægt að miðla sterkum skoðunum sínum á þann hátt að enginn hljóti skaða af. Það er þetta með að tækla boltann og ekki manninn.
Eftir því sem fólk tekur á sig meiri ábyrgð í samfélaginu, forseti, ráðherrar, þingmenn, o.s.frv., geri ég persónulega þá kröfu á hendur þeim aðilum að það gangi fram og sýni gott fordæmi um hvernig tjáningarskyldum ætti að vera háttað. Því miður er þessu ábótavant. Oft virðist sem við gleymum skyldum okkar á athugasemdakerfum, í fjölmiðlum og ekki síst í sölum Alþingis. Oft hef ég hrist höfuðið yfir samskiptaháttum og orðalagi sem þrífst á hæstvirta Alþingi okkar Íslendinga síðustu árin. Nú seinast í dag hljóma um þingsali orð eins og „hrægammur“ og „skítaleiðangur“.
Er of mikils að biðja um að samfélagslegar skyldur séu jafnvirtar réttindum?
Kv.
Hannes Bjarnason

Betrumbætur

Góðan dag!

Fyrir nokkrum árum tók ég Executive Master of Management gráðu í Noregi. Í einum tímanum var farið í leik sem gekk út á það að safna sem flestum stigum. Reglurnar voru þannig að við áttum að ganga að samnemanda okkar og gera honum tilboð, t.d. 70-30. Tók viðkomandi því þá fékk sá sem bauð 70 stig og viðmælandinn 30. 100 stig voru sem sagt í pottinum í hvert skipti.

Það sem við vissum ekki var að nokkrir í hópnum höfðu fengið fyrirmæli um að bjóða alltaf sama tilboðið, þ.e. 90-10. Fáeinir aðrir höfðu fengið fyrirmæli um að segja „já“ við öllum tilboðum sem þeir fengu.

Í lok tímans var svo talið upp hverjir höfð safnað flestum stigum. Reyndist það svo vera að þeir sem höfðu fengið fyrirmæli um að segja já við öllum tilboðum höfðu safnað flestum stigum.

Þar sem bjóðandi gaf tilboð sem innibar að hann fékk mun fleiri stig en viðmælandi, t.d. 90-10, 80-20, 70-30, o.þ.h., litu viðmælendur þannig á málin að mótherjinn væri að græða á þeirra kostnað og sögðu þvert nei. Á meðan töpuðu þeir samt 10, 20 og 30 stigum í hvert skipti.

Tilgangur leiksins var að benda nemendum á mannlegan eiginleika sem að oft koma í ljós hjá fólki þegar það heldur að verið sé að svindla á því eða gabba það. Þ.e. að betra sé að hafna öllum ágoða eða málsávinningi heldur en að láta gabba sig. Þetta er afar mikilvæg vitund að hafa með sér í ráðgjafabransanum.

Þegar ég hlusta á og les viðbrögð margra málsmetandi aðila við tillögum stjórnarskránefndar að nýjum ákvæðum í stjórnarskrá, verður mér hugsað til þessa leiks í kennslustofunni í Ósló. Að betra sé að ganga frá borði allslaus heldur en að láta gabba sig.

Persónulega finnst mér skynsamlegra að vinna betrumbætur í smáum skrefum en að hafna þeim algjörlega.

Kv.
Hannes Bjarnason

Innri og ytri hvatar forsetaefna

Góðan dag!

Í pistlinum „Annir forsetaembættisins“ viðraðir ég þær skoðanir að forsetaembættið byði upp á allt annað en teboð á Bessastöðum. Yfirgnæfandi líkur væru á því að forsetaembættinu fylgdi mikil vinna ef vel ætti að standa sig í stykkinu. Við það má sjálfsagt bæta að skorður eru settar einkalífi bæði forsetans sjálfs, maka og e.t.v. börnum. Til að mynda skautaði frétt um netheima ekki alls fyrir löngu, þar sem sitjandi forseti var að kaupa bolludagsbollur handa fjölskyldunni í bakaríi.

Á seinni hluta 19. aldar kynnti Ibsen hugtakið „kongstanke“ í leikritinu „Kongsemnerne“, hugtakið lifir í bestu velmegun í Skandinavíu. Inntakið í leikritinu er valdabarátta um konungsstól í Noregi og hvaða áhrif það hefur að hafa „kongstanke“ að leiðarljósi þegar sóst er eftir völdum. „Kongstanke“ má þýða sem hugsjón, innri sýn eða ástríðu, eitthvað sem einstaklingur virkilega brennur fyrir. Slíkir einstaklingar finna innri kraft sem drífur þá áfram sama á hverju stendur.

Það er kannski of mikið að biðja um forsetaefni sem hefur allt, þ.e. klára framtíðarsýn (um embættið), aga (gengur brosandi til allra verka), ástríðu (tilbúinn að leggja mikið í sölurnar fyrir hjartans mál), og samvisku (sterk siðfræðileg réttlætiskennd). Allir fyrrgreindir þættir eiga uppsprettu í sjálfinu eða hið innra með persónu. Köllum þetta innri hvatningu sem ég tel svo sannarlega mikilvæga inn í embættið. Kannski það mikilvægasta.

Flestir þeir sem þegar hafa tilkynnt um framboð til forseta, sem og flestir hinir sem enn sitja á hliðarlínunni eiga a.m.k. eitt sameiginlegt. Svo virðist sem ytri hvatning ráði mestu um það hvort fólk fari fram eða ekki.

Á endanum er því samt þannig farið að enginn verður forseti án þess að hljóta ríkan stuðnings almennings. Ég veit allt um það :)

Annir forsetaembættisins

Góðan dag!

Það er líklega ekkert leyndarmál að ég fylgist grannt með þróun mála í aðdraganda forsetakosninga nú í júní. Les og hlusta á það mesta sem dettur inn á fjölmiðlana ásamt því sem er að finna á samfélagsmiðlum. Margt er það sem þar stendur áhugavert. Nú þegar eru nokkrir einstaklingar búnir að tilkynna að þeir bjóði sig fram. Mættu þeir fá meiri athygli í fjölmiðlum á kostnað þeirra sem kannski eða kannski ekki verða frambjóðendur.

Að genga embætti forseta Íslands er ábyrgðar-, og virðingarstaða að mínu mati. Síðustu fjögur ár hef ég fylgst með þeim opinberu verkefnum sem sitjandi forseti hefur tekið þátt í, þ.e. lista sem lagður er út á heimasíðu embættisins. Fyrir hvern viðburð er forseti tekur þátt í þarf hann að vera vel undirbúinn og að sér á þeim sviðum sem viðburðurinn nær yfir. Þá er vitað að forseti tekur á móti fjölda gesta á Bessastöðum og kannski víða, ræðir þar margvísleg málefni þó svo að það rati aldrei á heimasíður embættisins.

Því má vænta að vinnuálag þess einstaklings sem kosinn verður næsti forseti lýðveldisins verði mjög mikið. Á margan hátt held ég að embætti forseta íslands sé einmannalegt embætti, þ.e. að forseti þurfi oftar en ekki að sitja einn að sínu og sinni vinnu. Oft er sagt að kalt sé á toppnum og það held ég að geti vel átt við um embættið.

Það hefði verið áhugavert ef einhver fjölmiðill hefði virkilega kafað í dýpið, skrifað kjarngóða grein um hversu mikil vinna og vinnuálag það eiginlega er sem fylgir forsetaembættinu. Fjölmiðlar, áskorunin er komin :)

Kv.

Hannes Bjarnason

Stærðarhagkvæmnin

Góðan dag!

Í morgun á leið til vinnu hlustaði ég á skemmtilegt viðtal við Guðmund Franklín Jónsson en hann var viðmælandi þáttarins „Í býtið“ á Bylgjunni. Guðmundur Franklín hafði ýmislegt áhugavert að segja í viðtalinu. Meðal annars talaði hann um samfélagsbanka og velti upp þeirri spurningu hvort ekki væri skynsamlegt að halda úti smærri bankaeiningum. Ekki ósvipað því sem var hér áður fyrr, t.d. með Sparisjóðina og Samvinnubankann, þ.e. bankar sem voru yfirleitt í góðri tengingu við nærumhverfi sitt og skildu það.

Í mörg ár höfum við horft fram á og lifað við markaðshyggju sem lítur mjög til stærðarhagkvæmni, þeim um stærri rekstareiningar þeim mun betri samkeppnishæfni og þeim mun meiri hagnaður. Hagnaður sem almenningur sér fyrst og fremst í arðgreiðslum til eigenda stórfyrirtækja. Stórir aðilar verða ráðandi á markaði og hætta á fákeppni er mikil. Sem dæmi um fákeppni má nefna olíufélögin, bankageirann og tryggingarfélögin. Þegar öllu er á botnin hvolt þá snýst rekstur slíkra stórfyrirtækja fyrst og fremst um það að skapa eigendum sínum sem mestan hagnað. Skiptir þar engu þó gengið sé þvert á þá samfélagslegu ábyrgð sem ég meina að fyrirtækin hafi. Það er að búa almenningi betra kjör. Það gerist ekki með einvherjum fögrum orðum innbundna í stefnu um samfélagsábyrgð sem oft er að finna á heimasíðum fyrirtækjanna.

Hvernig er því búið að tryggingarfélög þurfa að hækka iðngjöld og svo nokkrum mánuðum síðar geta þau borga eigendum sínum gífurlegan arð? Hvernig er því farið að hagnaður af þjónustugjöldum einum, í einum banka er hærri en hagnaður eins stærsta útgerðarfyrirtækis landsins? Hvernig hefur það gerst að stór fasteignafyrirtæki fara mikinn í höfuðborginni, ryksuga upp bæði íbúðir og atvinnuhúsnæði og svo skrúfa upp leigu? Varla er þessi háttsemi almenningi eða smáum fyrirtækjum til góða.

Er því þannig farið að verði fyrirtæki nógu stór þá detta þau úr sambandi við umhverfi sitt og verði að ríki í ríkinu? Geta almenningur og minni fyrirtæki landsins sætta sig við það að vera þrælar kerfis sem hugsar eingögnu og einangrað um sjálfið og getu til að greiða fámennri sétt eigenda sinna gífurlegan arð?

Getur, eða öllu heldur sættir almenningur sig við þá þróun sem virðist vera í gangi í samfélagi okkar?

Kv.

Hannes Bjarnason

Þjóðir í þjóð

Góðan dag!

Undanfarna daga hefur fjölmiðlum orðið tíðrætt um gífurlegan hagnað bankageirans og arðgreiðslur bæði til eigenda og starfsmanna.

Persónulega finnst mér vera hrópandi ósamræmi á þessum ofboðslega hagnaði á meðan þorri landsmanna stritar myrkranna á milli til þess að standa undir afborgunum af lánum sínum sem eru á okur vöxtum. Gleymum því ekki að bankar landsins ættu fyrst og fremst að vera þjónustuaðili fólks og atvinnulífs, ætti að virka sem eins konar smurning á tannhjól sammfélagsins. Án þess þó að maka krók sinn út í hið ósmekklega.

Allur þessi hagnaður og arðgreiðslur bankakerfisins hljóta að stuða almenning. Sérstaklega á meðan svo óskaplega lítið virðist vera hægt að gera fyrir almúgann.

Þar fyrir utan, ég get bara ekki munað eftir því að hafa heyrt um að ræstitæknar hafi fengið arðgreiðslur fyrir samviskusamlega unna vinnu sína. Né bændur. Né sjúkraliða. Ekki heldur sjómenn. Hvað þá afgreiðslufólk í verslunum. Og aldeilis ekki kennara eða leikskólakennara.

Hefur samfélag okkar fengið að þróast í þá átt að á Íslandi búi þjóðir og ekki bara ein þjóð? Ef svo er, viljum við hafa það þannig?

Ég vil það ekki.

Kv.

Hannes Bjarnason

Drög að nýjum stjórnarskráratkvæðum

Góðan dag!

Margt hefur verið ritað og sagt um umbótavinnu við stjórnarskrá okkar ágæta lands. Margt gáfulegt og annað síðra.

Mig langar til að róma vinnu starfandi stjórnarskrárnefndar því ekki er auðvelt að sigla áfram því skipi er strandað hefur. Án efa hefur reynt töluvert á nefndina og tel ég ákvörðun Pírata um að standast freistingar og ganga ekki frá borði, vera þeim til sóma. Allar breytingar á stjórnarskrá landsins eru stórmál. Þess vegna er það svo mikilvægt að ná sáttum um niðurstöður, þó svo öllum finnist á hallað. Þá er það uppörvandi að forsætisráðherra hefur lýst því yfir að vilji sé á þingi til að klára málið. Vonandi mælir hann fyrir munn sem flestra þar á bæ, í þessu máli að minnsta kosti.

Þann farveg sem umbætur á stjórnarskránni hafa tekið tel ég ásættanlegan. Það er að taka fyrir nokkrar greinar og endurskoða, nú eða bæta við stjórnarskránna eins og í þessu tilfelli. Nú ríður á að klára formlegt ferli á þingi og svo að kjósa um tillögurnar. Vonandi hljóta tillögurnar hljómgrunn og megi þær öðlast gildi. Þá væri næsta skref að vera það að halda áfram að endurskoða stjórnarskránna. Taka fyrir nokkur atriði í einu, setja í ferli þar sem mismunandi sjónarmið leitast við að upplýsa sem flestar hliðar málanna og svo koma með sameiginlegar tillögur.

Að betrumbæta stjórnarskrá og stjórnskipulag þjóða er löng vegferð. Og eins og við öll vitum þá hefst sérhver vegferð á einu skrefi.

Kv.

Hannes Bjarnason